Nýjast á Local Suðurnes

Auglýsa eftir presti til starfa við Njarðvíkurprestakall

Nýr prestur verður ráðinn við Njarðvíkurprestakall á næstu vikum vegna mikillar fjölgunar sóknarbarna í prestakallinu. Notast verður við svokallaða kjörnefnd við ráðninguna. Kjörnefnd verður skipuð fulltrúum frá sóknum Njarðvíkur-, Ytri-Njarðvíkur- og Kirkjuvogskirkju, alls 15 manns og er kosið í kjörnefnd á safnaðarfundum hverrar kirkju fyrir sig.

Samkvæmt heimildum Suðurnes.net mun nýr prestur starfa við hlið séra Baldurs Rafns Sigurðssonar, sóknarprests í Njarðvíkurprestakalli og verður auglýst eftir umsækjendum um stöðuna eftir að kjörnefndir hafa verið kjörnar.

Njarðvíkurprestakall er stærsta einmenningsprestakall landsins með um 7.500 íbúa, en prestakallið er víðfermt og skiptist í þrjár sóknir, Njarðvíkur-, Ytri-Njarðvíkur og Kirkjuvogssókn. Ítrekað hefur þess verið farið á leit við Biskup Íslands að ráðinn verði annar prestur við prestakallið, en þess má geta að viðmiðunarmörk íbúafjöla á hvern prest eru 4.000 íbúar.