Nýjast á Local Suðurnes

Auglýsa eftir neyðarheimili – Tækifæri til að hlúa að börnum sem hafa upplifað erfiðar aðstæður

Barnavernd Suðurnesjabæjar og Sveitarfélagsins Voga í samstarfi við barnavernd Reykjanesbæjar hefur auglýst eftir umsóknum frá fjölskyldum sem eru tilbúin til að veita börnum móttöku á einkaheimilum. Samkvæmt auglýsingunni er einstaklingum einnig heimilt að sækja um.

Í auglýsingunni, sem finna má á vef Reykjanesbæjar, kemur fram að barnaverndarnefndir skulu hafa tiltæk úrræði til að veita börnum móttöku í bráðatilvikum, til að tryggja öryggi þeirra, greina vanda eða til könnunar á aðstæðum þeirra. Um er að ræða gefandi starf þar sem fjölskyldur fá tækifæri til að hlúa að börnum sem hafa upplifað erfiðar aðstæður.

Neyðarheimili tekur á móti barni/börnum með stuttum fyrirvara til skemmri tíma, í allt að þrjá mánuði. Þá er tekið fram að leitað sé eftir fólki sem hefur áhuga á velferð barna og er tilbúið að taka á móti þeim með stuttum fyrirvara og mæta breytilegum þörfum þeirra. Mikilvægt er að skapa þeim öruggar aðstæður með hlýju og nærgætni.

Barnaverndarstofa veitir leyfi að undangenginni úttekt á heimilishögum að hálfu barnaverndarnefndar. Reynsla og þekking af börnum er æskileg og er aldurstakmark 25 ára.