Nýjast á Local Suðurnes

Atvinnumálin í brennidepli á vetrarfundi S.S.S.

Vetrarfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum var haldinn þann 18. mars síðastliðinn í Gerðaskóla. Að þessu sinni snérust umræðurnar á fundinum um þá miklu uppbyggingu sem er í gangi og er framundan á og við Keflavíkurflugvöll.

Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia fór yfir framkvæmdir í og við flugstöðina og kom fram í máli hans að á árinu yrði 17 þúsund fermetra stækkun í og við flugstöðina að veruleika. Þá kom fram í máli Björns Óla að stækkun Suðurbyggingar yrði stóra verkefnið næstu tvö árin.

Hjalti Jóhannesson sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri fjallaði í tölu sinni um samfélagsáhrif álvers og virkjunarframkvæmdir á árinu 2004-2010. Fram kom í máli hans að við álversframkvæmdir á Austurlandi hafi ríkt fjölþjóðleg stemning á svæðinu meðan á framkvæmdum stóð og að erlendir starfsmenn hafi verið um þriðjungur íbúa  á áhrifasvæðinu á framkvæmdatímanum. Hjalti sagði slakt utanumhald hafa verið um erlenda starfmenn, bæði skattamál og starfsleyfisskráning.

Þá töluðu þau Vala Valtýsdóttir, lögfræðingur hjá Deloitte og Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri og deildarstjóri félagsmáladeildar ASÍ um skattamál, svarta atvinnustarfsemi og málefni erlendra starfsmanna hér á landi.

Um 50 manns mættu á fundinn að þessu sinni og að loknum ræðuhöldum gaf fundarstjóri orðiið laust og tóku fjölmargir til máls þar sem meðal annars var rætt um verktakasamninga og hlutverk sveitarfélaga gagnvart svartri atvinnustarfsemi, eftirliti og forvörnum auk mannsals. Að lokum var rætt um ábyrgð sveitarfélaga á jákvæðri umræðu um þau fyrirtæki sem væru að skapa störf á svæðinu.