Nýjast á Local Suðurnes

Ástæða til að endurskoða aðalskipulag Reykjanesbæjar

Margar góðar hugmyndir og ábendingar bárust varðandi breytingar á aðalskipulagi Reykjanesbæjar á íbúaþingi sem haldið var í Stapa sl. laugardag. Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs segist ánægður með fjölda þátttakenda og sérstaklega hversu vel þeir tóku þátt í umræðunni og höfðu sterkar skoðanir.

Hugmyndum íbúa verður fundinn staður í þeirri vinnu sem nú fer að hefjast í endurskoðun á aðalskipulagi bæjarins. „Meiningin er að halda kynningarfund fljótlega eftir áramót, þar sem íbúum verður kynnt staða mála. Fundir af þessu tagi hafa verið haldnir áður þegar unnið hefur verið með aðalskipulag og hafa þeir mælst vel fyrir,“ segir Guðlaugur.

Aðalskipulag Reykjanesbæjar var samþykkt í bæjarstjórn árið 2010 og hugmyndir voru uppi um að það gilti til ársins 2024. Margar þær forsendur sem byggt var á í skipulaginu, s.s. byggðaþróun og fólksfjölgun, hafa hins vegar breyst og því þykir ástæða til að endurskoða það.

Á þinginu fór Stefán Gunnar Thors umhverfishagfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf yfir gildandi skipulag, forsendur og breyttar forsendur. Hann sagði ekki óalgengt að fara þyrfti yfir aðalskipulag fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir vegna breyttra forsenda. Nú þurfi að taka mið af nýrri íbúaspá, uppbyggingu atvinnu- og íbúasvæða, verndun svæða og fleiri þátta.

Farið var í fimm þætti í aðalskipulagi og þátttakendum gefinn kostur á að velja sér þátt eða þætti eftir áhugasviði. Farið var í atvinnumál, byggðaþróun, náttúru- og umhverfi, þjónustu- og menningu og samgöngur. Ýmsar spurningar lágu frammi á hverju þátttökuborði fyrir sig og var svörum og hugmyndum safnað saman.

„Núna erum við að vinna úr þeim fjölmörgu hugmyndum og ábendingum sem komu fram á þinginu og setja upp. Þær verða svo kynntar á næsta fundi umhverfis- og skipulagsráðs um miðjan október. Þá verður jafnframt settur á laggirnar stýrihópur um endurskoðun aðalskipulags Reykjanesbæjar, sem ég á von á að í sitji fulltrúar meiri- og minnihluta auk embættismanna, líkt og verið hefur.“ Sagði Guðlaugur.

Guðlaugur segist eiga vona á því að fljótlega upp úr áramótum liggi fyrir einhver drög að breytingum sem síðan verði unnið með á öðru íbúaþingi. Stefnt sé að því að nýtt endurskoðað aðalskipulag taki gildi haustið 2016.