Nýjast á Local Suðurnes

Ásmundur: “Er ekki rasisti” – Telur ritstjóra skrifa í pólitískum tilgangi

Þingmannslífið hefur ekki verið dans á rósum fyrir þingmann Suðurkjördæmis, Ásmund Friðriksson, að undanförnu, hann hefur verið í hringiðu umræðunnar vegna frumvarps minnihluta alþingis um afturvirkar kjarabætur til ellilífeyrisþega og öryrkja, þar sem hann greiddi atkvæði á móti tillögunni og sat hjá í atkvæðagreiðsu um breytingartillögu um sama málefni.

Á dögunum skrifaði svo ritstjóri Kjarnans harðorðan leiðara þar sem hann segir þingmanninn vera rasista í öllum hefðbundnum skilningi þess orðs:

“Ásmundur er rasisti í öllum hefðbundnum skilningi þess orðs. Það er enginn vafi um það. Hann vill vernda hina „góðu“ frá hinum „illu“ með því að mismuna þeim.” Segir í leiðara Þórðar Snæs.

Ásmundur svarar Þórði í löngum pistli á Facebook-síðu sinni í morgun, þar sem hann gerir meðal annars aðgerðir nágrannaþjóða okkar í flóttamannamálum að umtalsefni:

“Í því ljósi má benda á umræðuna í nágrannalöndum okkar en þær þjóðir eru að herða landamæraeftirlit. Evrópuþjóðir eru þessa dagana að ræða hvernig hægt er að stoppa í götin á landamæravörslu ríkjanna og sum þeirra hafa slálokað landamærunum meðan unnið er að lausn vandans.” Segir Ásmundur í Pistli sínum.

Hann skýtur í Facebook-færslu sinni föstum skotum að ritstjóranum sem hann telur að skrifi í pólitískum tilgangi:

“Bloggfjölmiðlar ættu að upplýsa um pólitísktengsl og hagsmunatengsl.
Skrif Þórðar Snæs endurspegla allt það sem er að umræðunni í dag. Reiðir Bloggfjölmiðlamenn reyna að hafa áhrif á ákvarðanir og atburðarás stjórnmálanna meðal annars með því að þagga niður umræðuna og stimpla fólk úr ákveðnum flokkum með neikvæðum formerkjum. Ef einhver er með aðrar skoðanir en vinstraliðið í skotgröfunum þá eru viðkomandi úthrópaður, umræðan kölluð hatursumræða og fólk stimplað rasistar.” Segir Ásmundur.