Nýjast á Local Suðurnes

Árni Sigfússon: Mistök hjá USi að hafa ekki kynnt byrjunarfasann

Árni Sigfússon - Mynd: Rúv

Árni Sigfússon, fyrrverandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir þann tímapunkt vera að nálgast að ganga þurfi hart að fyrirtækinu United Silicon sem rekur kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Að mati Árna hefur fyrirtækið enn ekki sýnt fram á að staðið verði við fullyrðingar sem gefnar voru þegar fyrirtækið falaðist eftir lóð í Helguvík.

Árni segir fullyrðingarnar vera þrjár; að laun yrðu til jafns við launakjör í álverum, að skuld fyrirtækisins við Reykjaneshöfn yrði greidd, en fyrirtækið skuldar enn hluta af lóðargjöldum og lyktarmengun.

Þetta kemur fram í pistli sem Árni ritaði á Facebook, en þar kemur einnig fram að Árni telji það vera mistök forsvarsmanna United Silicon að hafa ekki kynnt fyrir íbúum Reykjanesbæjar hver byrjunarfasi nýrrar kísilmálmverksmiðju væri.

Árni var sem kunnugt er bæjarstjóri í Reykjanesbæ þegar samningar við fyrirtækið vegna lóðar í Helguvík voru undirritaðir.