Nýjast á Local Suðurnes

Allt í rusli á Ásbrú – “Kennum fólki að opna ruslatunnu, setja ruslið ofan í og loka”

Töluverð umræða hefur skapast um óþrifnað í og við sorpgeymslur við nokkur fjölbýlishús á Ásbrú, en fjöldi íbúa lýsir yfir óánægju sinni með umgengni um sorpgeymslurnar í lokuðum hópi íbúa hverfisins á Facebook. Af myndum sem fylgja færslunum að dæma virðist sem einhverjir íbúar á svæðinu hafi ekki fyrir því að setja heimilissorp í þar til gerðar tunnur.

Sumir íbúar eru orðnir þreyttari en aðrir á ástandinu og varpa fram humyndum um hvernig leysa megi þessi leiðindamál á einfaldan hátt, meðal annars með námskeiðahaldi.

“Hvernig bæri að fólk sem fær úthlutað íbúð á ásbrú að því sé skylt að sitja námskeið þar sem kennt er að opna ruslatunnu og setja ruslið ofan í og loka.” Segir einn íbúi í ummælum við eina af færslunum.

Samkvæmt útboðslýsingu sorphirðu, sem framkvæmd er á vegum Sorpeyðingastöðvar Suðurnesja, kemur fram að umráðamenn fasteigna hafi nokkrum skyldum að gegna þegar kemur að umhirðu sorpgeymsla; Ganga skal þannig frá sorpílátum og sorpgeymslum að sorpílát fjúki ekki eða valdi óþrifum eða óþægindum auk þess sem sorpílátum og sorpgeymslum skal haldið við eftir þörfum og þær hreinsaðar reglulega.