Nýjast á Local Suðurnes

Allt fullt á Keflavíkurflugvelli – Farþegum ráðlagt að taka rútu eða leigubíl á völlinn

Isavia vill vekja athygli á því að á tólfta tímanum í gærkvöldi voru aðeins á bilinu 50-60 bílastæði laus á langtímastæðum við Keflavíkurflugvöll. Ætla má að langtímabílastæðin verði orðin yfirfull að morgni skírdags – en lausu stæðin er á þessari stundu enn hægt að bóka á vef Isavia.

Þegar stæðin verða yfirfull er farþegum ráðlagt að taka rútu, strætisvagn eða leigubíl út á Keflavíkurflugvöll eða að láta aka sér þangað þar sem ekki eru laus langtímastæði fyrir bifreiðar við flugstöðin.

Fyrr í þessum mánuði sendi Isavia frá sér tilkynningu um að allar líkur væru á að bílastæðin við flugvöllinn myndu fyllast um páskana eins og gerðist í fyrra. Voru farþegar því hvattir til að bóka sér bílastæði á vef Isavia og nota til þess nýtt bókunarkerfi. Þannig gætu farþegar tryggt sér stæði um páskana og á betri kjörum en þegar greitt er við hlið.

Síðan þá hafa fjölmargir farþegar bókað sér stæði eru þau nú að fyllast. Hægt er að sjá hvort stæði séu laus eftir páska í bókunarkerfinu.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu biðst Isavia afsökunar á þeim óþægindum sem þessi staða kann að valda farþegum.

Fjölgun bílastæða við flugvöllinn er liður í þeirri framkvæmdaáætlun sem unnið er að vegna áformaðrar stækkunar flugvallarins á næstu árum.

Bílastæðavandamál við flugvöllinn hafa verið töluvert í umræðunni undanfarna daga, en nokkur fyrirtæki bjóða upp á slíka þjónustu við völlinn og hefur ásóknin verið töluvert meiri en menn áttu von á. Enn eru þó laus pláss hjá fyrirtækjum sem veita slíka þjónustu, eftir því sem Suðurnes.net kemst næst.