Nýjast á Local Suðurnes

Aldrei meiri umferð – Um 20.000 ökutæki fara um Reykjanesbraut á sólarhring

Umferðin á Hringveginum í maí hefur aldrei verið meiri en í nýliðnum mánuði. Eigi að síður er hraði aukningarinnar í umferðinni heldur minni nú en áður. Það stefnir í að umferðin í ár geti aukist um 8-9 prósent sem er gríðarlega mikið en slær samt ekki met.

Umferðin í nýliðnum maí jókst um 9,3% samtals yfir öll 16 lykilsnið Vegagerðarinnar á Hringvegi miðað við sama mánuð á síðasta ári. Eitt af lykilsniðum Vegagerðarinnar er Reykjanesbraut á Strandarheiði, en þar gera spár Vegagerðarinnar ráð fyrir að 19.200 ökutæki muni fara um á sólarhring í sumar, eða rúmlega 2.000 fleiri en síðasta sumar þegar rétt rúmlega 17.000 ökutæki fóru um Reykjanesbrautina á sólarhring.

Það sem af er ári hefur umferðin nú aukist um 12,5%, sem er aðeins minni aukning en á sama tíma á síðasta ári en samt sú önnur mesta frá upphafi samantektar.