Nýjast á Local Suðurnes

Alda þjófnaða á Suðurnesjum

Lögreglunni á Suðurnesjum hefur verið tilkynnt um allmarga þjófnaði eftir helgina. Til að mynda var tilkynnt að fjórum felgum með hjólbörðum hefði verið stolið undan bílaleigubíl í umdæminu. Þegar að var komið stóð bifreiðin á undirvagninum öðrum megin en á tjakk hinum megin.

Á dögunum var einnig tilkynnt um að vespu hefði verið stolið í Keflavík og að einhver eða einhverjir hefðu látið greipar sópa í skáp í búningsklefa í Bláa lóninu.

Enn fremur var einstaklingur gripinn þar sem hann hafði tekið tvær tannkremstúpur, vítamínglas og límstifti úr verslun í umdæminu. Tveir til viðbótar urðu uppvísir að þjófnaði í annarri verslun, þar sem þeir höfðu stolið tveimur rakspíraglösum.

Loks barst tilkynning um ítrekaðan þjófnað úr komuverslun fríhafnarinnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Talið er að heildarverðmæti varningsins sem stolið hefur verið nemi um 150 þúsund krónum.