Nýjast á Local Suðurnes

Ákærðir fyrir að valda tugmilljóna tjóni – Byrjuðu á að stela kexi og kókómjólk

Héraðssaksóknari hefur ákært fjóra menn fyrir nokkur brot, þar á meðal íkveikju í Sandgerði og Garði í byrjun ágúst fyrir þremur árum. Tjónið er áætlað vera rúmlega 20 milljónir króna.

Greint er frá ákærunni á vef RÚV, en þar kemur meðal annars fram að einum mannana sé gefið að sök að hafa brotist inn í gróðrarstöðina Glitbrá ásamt tvítugum félaga sínum og stolið þaðan kexi og kókómjólk. Aðrir tveir eru ákærðir fyrir skemmdarverk í fiskvinnslu Nesfisks í Garði.

Þrír af mönnunum fjórum eru síðan ákærðir fyrir tilraun til þjófnaðar. Þeir eru sagðir hafa brotist inn í áhaldaskúr Sandgerðisbæjar og ætlað að stela þaðan bensíni. Einn úr hópnum er síðan ákærður fyrir íkveikju en honum er gefið að sök að hafa hellt bensíni yfir tjalddúk sem geymdur var í skúrnum og kveikt í.