Nýjast á Local Suðurnes

Afsláttur af notendagjöldum á Keflavíkurflugvelli minnkar árstíðarsveiflur

Grétar Már Garðarsson verkefnastjóri á viðskiptasviði Keflavíkurflugvallar fór yfir farþegaþróun á Keflavíkurflugvelli síðastliðin ár og spá Isavia fyrir árið 2017 á morgunfundi sem fyrirtækið hélt í gærmorgun. Spáin hefur ræst að mestu leyti það sem af er ári og útlit er fyrir að sumarmánuðirnir verði einnig í takt við spána.

Samkvæmt spánni mun fjölgun ferðamanna yfir árið í heild nema um 25% en hlutfallsleg fjölgun yfir hásumarið verður minni, eða 12%. Hann sýndi einnig fram á mikinn árangur í að minnka árstíðarsveifluna, en nú kemur þriðjungur ferðamanna yfir hásumarið miðað við 50% árið 2010.

Grétar útskýrði einnig hvernig þjóðernistalning fer fram og þær breytingar sem gerðar verða á næstunni til þess að gera upplýsingarnar nákvæmari. Samkvæmt talningunni voru Bandaríkin stærsti markaðurinn og jókst fjöldi farþega um 71% milli ára. Bretar koma þar næst og jukust ferðir þeirra til landsins um 31% frá fyrra ári. Þá fór Grétar yfir áhrif af hvatakerfi sem býður afslátt af notendagjöldum fyrir flugfélög sem nota flugvöllinn utan mestu álagstímanna.