Nýjast á Local Suðurnes

Afbókanir með skömmum fyrirvara koma illa við veitingamenn – Landhelgisgæslan naut góðs af

Örn Garðarsson, sem rekur Soho veisluþjónustu í Reykjanesbæ, greindi frá því á Facebook í gær að hann hefði lent í tveimur afbókunum vegna kórónuveirunnar með stuttum fyrirvara, með tilheyrandi tapi. Önnur veislan var afbókuð með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Samtals var um að ræða 350 manna veislur.

Frá þessu er greint á Vísi.is, en þar kemur fram að tjónið sé töluvert og Örn segist ekki vera viss um það hvort hann gæti sótt sér einhverjar bætur. Þá taldi hann það alls ekki sanngjarnt að veitingamaðurinn sæti uppi með tjónið í þessum aðstæðum. Í grein Vísis kemur einnig fram að fyrirhugaður sé fundur með öðrum þeirra aðila sem afbókaði.

Þá kemur fram í fréttinni að Örn sé þó að nokkru leyti heppinn, þar sem hann sinni Landhelgisgæslunni með mat á Keflavíkurflugvelli. Maturinn þar á bæ var því með flottara móti um helgina.

„Ég er það heppinn að við erum að sinna Landhelgisgæslunni með loftvarnareftirlitið, sjáum um matinn þar, og þar er töluverður fjöldi af hermönnum sem þurfa mat á hverjum degi í tvær til þrjár máltíðir. Þannig að það var rosa flottur matur hjá þeim um helgina.“ Sagði Örn við Vísi.is.