Nýjast á Local Suðurnes

Á Ólafur Ragnar 7.300 bindi? – Vangaveltur Árna Árna á föstudegi

Talandi um ekki fréttir, þá fékk bindi forsetans athygli í vikunni. Gamli mætti víst með framboðsbindið í útvarpsviðtal. Gárungarnir veltu því fyrir sér hvort bindið gæfi til kynna að Ólafur fari aftur fram í forsetakosningunum í vor. Ólafur á það víst til að nota sama bindið tvisvar sinnum. Þetta kalla ég nýtni þó aðrir kalla það eitthvað annað. Það væri nú mikill kostnaður ef Ólafur þyrfti nýtt bindi á hverjum degi í embætti. Ef við bara sláum þessu upp, þá mun hann sitja í 20 ár á Bessastöðum, ljúki hann þessu kjörtímabili. Það gerir sirka 7.300 bindi. Ég vona að kjallarinn á Bessastöðum sé ekki fullur af bindum – það gæti samt verið skemmtilegt, frú Vigdís Finnboga sýndi kjólana, kannski Ólafur sýni bindin.

Árni Árna

Árni Árna

Útvarp Saga er ótrúlegt fyrirbæri – vinnubrögðin minna á Rússland. Þar ríkir ein stefna og henni skal fylgt í tvívetna og ef eitthvað útaf ber, þá er niðurstöðunni bara hagrætt í takt við komúnismann. Arnþrúður Karlsdóttir roðnar ekki við að ljúga og rökstyður lýgina með að draga ályktanir sem eru fjarstæðukenndar. Til að byrja með, af hverju þurfum við að treysta Bubba Morthens ? Er Bubbi á leið í forsetaframboð? Þetta var enn ein kjánalega skoðunarkönnunin til að ráðast á fólk. Niðurstaðan var jákvæð og þá er slegið upp að um netárás hafi verið að ræða. Sorry með mig, en íslendingar nenna ekki útvarpi Sögu, hverjar eru þá líkurnar að haggari í Sviss eyði tíma sínum í að hakka síðuna? Íslendingar nenna ekki einu sinni að skoða síðuna. Arnþrúður hefur komist að því að fyrst að kannanir Útvarp Sögu eru hakkaðar að þá hljóta pólitískar kannanir vera það líka og skýrir með þeim hætti fylgi pírata. Þrátt fyrir að vera engin stuðningsmaður pírata, þá get ég ekki fallist á rök útvarpsnornarinnar og mæli með að nornin tóni sig aðeins niður í vitleysunni – hver fjármagnar rússnesku útvarpsstöðina í norðri spyr ég bara.

Rúmfatalagerinn startaði jólunum um síðustu mánaðarmót og er það ástæðan fyrir því að ég hef ekki komið þar við. Jólagleðin endist ekki í nokkra mánuði og ef byrjað er að gramsa í jólavörum í lok september þá er það ávísun á jóla-ógleði loksins þegar jólamánuðurinn gengur í garð. Bauhaus fylgdi eftir og sendi bækling í hvert hús núna í vikunni. Stútfullan af leddrasli beint frá Kína á verði sem er til skammar. Þetta er allt hægt að fá fyrir klink á aliexpress. En það skondna við þetta er að náttúran greip í taumana, fyrst að verslanir eru að troða fram jólavörum blómstruðu páskaliljur fyrir norðan og sendi þar með kaupæðinu tóninn og spólaði yfir jólin. Já elskurnar það verða engin jól í ár, norðurlandið sendir ykkur í staðin kveðju um gleðilega páska.

Ingó veðurguð komst í hámæli í vikunni, en hann hefur verið kærður fyrir að baða sig á kostnað skattgreiðenda í Vestmannaeyjum. Ég hélt fyrst að kæran væri hrekkur hjá hrekkjalómafélaginu í eyjunni fögru en svo er ekki. Ingó var í slagtogi með nokkrum peyjum úr eyjum og þar á meðal markverði ÍBV þegar þeir félagarnir ákváðu að fara í sund. Eini gallinn var að sundlaugin var lokuð. Ég hef ekki séð svona frétt lengi, en í den þótti það til siðs að fara í bláa lónið eftir djamm. Þetta var á fyrstu árum lónsins og í stað þess að fara heim og njóta ásta með bráð kvöldsins var farið í lónið að elskast í hópum – þetta var félagslegs eðlis og lögreglan stanslaust með ónæði á meðan fólk reyndi að fjölga þegnum þessa lands. EN Ingó var með strákum, missti ég af öllu fjörinu ?

Stefán Jón Hafstein skellti sér í vikunni út á Seltjarnarnes og horfði yfir til Bessastaða og í huganum mátaði hann sig við forsetastólinn. Æi ég vona að ég sé ekki of neikvæður, en ég væri alveg til í hlutlausari forseta. Er ekki nóg að nú höfum við verið með pólitískan forseta brátt í 20 ár. Ég er ekki á því að dusta rykið af gömlum pólitíkus – ég hvet frekar Kristínu Ingólfsdóttur fyrrverandi rektor í forsetaframboð.

Gaman að sjá hvernig fjölmiðlar geta matað almúgan sem greinilega les bara fyrirsagnir. Það vakti óskunda í vikunni að keyptur hafi verið M. Bens fyrir forsætisráðuneytið á 22 milljónir. Rétta er að bílinn er metinn á 22 milljónir en ríkið fær hann á 13 milljónir. Gamli BMW –inn er orðinn 14 ára gamall með ónýta sjálfskiptingu. Þetta sýnir að það borgar sig að kaupa góða bíla enda mikið notaður. Ég tel það ekki mikið bruðl að endurnýja á 14 ára fresti. Þá er ekki nóg að BMW-inn sé byrjaður að bila, þá hefur hann fengið að finna fyrir því. Skattgreiðendur réðust á þessa eign þjóðarinnar í hruninu og grípu hann egjgjum og börðu og lömdu í greyið, hann hefur þjónað 4 ráðherrum að lágmarki – en það er alltaf gaman að sjá lætin þegar ráðherrabílarnir eru endurnýjaðir og ráðist er á ráðherranna hverju sinni, sem hafa bara ekkert með það að gera hvað er keypt eða selt í þessu efni.

Viss tímamót áttu sér stað í vikunni þegar ráðherra birti í fyrsta skiptið, að ég tel, skattaframtal til að verja sig frá ágangi fjölmiðla. Hart er sótt á Illuga menntamálaráðherra og er málið með ólíkindum ómerkilegt, en blóðbragðið virðist ríkja í tröntum blaðamanna frá lekamálinu. Spurning hvort Blaðamannafélagið haldi fundi þar sem pílu er kastað á vegg stjórnmálanna og ákveðið tilviljunarkennt hvern á að aflifa. Það vill svo til að stór hluti blaðamanna eru vinstri sinnaðir þannig að píla endar alltaf hægra megin á veggnum góða. Hvernig ætlumst við til að fá gott fólk í stjórnmál ef það má á engan hátt verið í launuðu starfi áður, tekist á við fjárhagslegar þrengingar, ekki leigja nema af aðilum sem eru samþykktir af samfélaginu. Það er með ólíkindum að almenningur sjái ekki í gegnum málið, lesi ekki á milli línanna. Páll Magnússon var útvarpsstjóri þegar Illugi tók við ráðuneytinu, það þurfti að taka til á RÚV og Páll fékk að fjúka – svo sest hann niður og skrifar grein gegn ráðherra. Fjölmiðlar fara á flug og mata almenning með skemmdu epli Páls og almenningur missir sig í commentakerfum. Ég veit að við viljum góða stjórnmálamenn, Illugi er það, en þessar hausaveiðar fjórða valdsins stefna í þátt átt að engin nennir hreinlega að kasta sér fyrir úlfana og þingsætin fyllast af fólki í leit að þægilegri innivinnu og öruggum tekjum án hugsjóna, þetta er nú þegar hafið.

Að lokum vona ég að lögfræðingar Útvarp Sögu lesi ekki föstudagspistilinn, nenni ekki að vera kærður. Nú ætlar Arnþrúður að draga netverja til saka – já Pútín style á þetta. Hálf þjóðin verður dregin fram fyrir dómstóla. Þetta minnir mig á manninn í þorpi út á landi sem gifstist konu sem hafði mjög víða komið við áður en þau hófu sambúð. Hann komst að því að besti vinur sinn hafði eitthvað verið viðriðinn konuna í den og sendi honum brét og afþakkaði vináttu og sagði hann ekki velkominn í heimsókn. Vinurinn ákvað að senda brét til baka og þar stóð- Dreifibréfið frá þér er móttekið.