Nýjast á Local Suðurnes

Á fimmta tug kynferðisbrotamála til rannsóknar á síðasta ári

Rannsóknardeild embættis Lögreglustjórans á Suðurnesjum hafði til rannsóknar samtals 42 kynferðisbrotamál á síðastliðnu ári, þar af voru átta nauðgunarbrot. Þetta kemur fram í nýútkominni ársskýrslu embættisins fyrir árið 2018.

Í skýrslunni kemur einnig fram að í tengslum við kynferðisbrotamál nú á tímum séu sífellt umfangsmeiri rannsóknir á rafrænum gagnavörslum af ýmsu tagi svo sem tölvum, farsímum, minnislyklum og gögnum sem eru vörsluð í „skýjum.“ Krefst það orðið töluverðar vinnu að rannsaka þessi gögn þar sem geymslurými þessara muna eru sífellt að stækka og mjög ör þróun í þá átt. En að sama skapi hefur þessi mikla gagnavarsla nýst við að upplýsa mál þar sem lögreglu gefst með þessum hætti kostur á að rekja feril brotanna með mjög afmörkuðum hætti.