Nýjast á Local Suðurnes

Á annan tug milljóna til íþróttafélaga á Suðurnesjum

ÍSÍ hefur greitt til íþrótta- og ungmennafélaga tæplega 300 milljónir króna af 450 milljón króna framlagi ríkisins til íþróttahreyfingarinnar vegna áhrifa Covid-19.

Úthlutunin byggir á tillögum vinnuhóps sem ÍSÍ skipaði þann 25. mars sl. til að móta tillögur að skiptingu þeirra fjármuna sem renna frá ríkinu til íþróttahreyfingarinnar til að mæta áhrifum Covid-19 og samþykktar voru af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og framkvæmdastjórn ÍSÍ.

Keflavík fékk rúmlega átta milljónir króna í þessari úthlutun, Grindavík tæplega fimm og Njarðvik tæplega þrjár milljónir. Önnur félög á Suðurnesjum fengu undir milljón krónum.

Reiknireglan er eftirfarandi:

  1. Framlagið skiptist milli íþróttafélaga sem starfrækja skipulagt íþróttastarf fyrir börn og unglinga 6 – 18 ára og höfðu að lágmarki skráðar 20 iðkanir, 6-18 ára, samkvæmt starfsskýrslum sem skilað var inn í félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ árið 2019.
  2. Iðkendur í almenningsíþróttadeildum, samkvæmt skráningu ÍSÍ og UMFÍ, teljast ekki með vegna mismunandi túlkunar á skráningu iðkenda í þær deildir.
  3. Við skiptingu milli félaga skal farið eftir fjölda iðkana. Þar skal miðað við fjölda iðkana 6-18 ára samkvæmt talnagrunni ÍSÍ og UMFÍ 2019, að undanskildum iðkendum í almenningsíþróttadeildum. Vægi iðkana í útreikningi er óháð búsetu þeirra.
  4. Tillit er tekið til fjölgreinafélaga í reiknireglunni. Heildarframlag fjölgreinafélaga hækkar með veldisvexti fyrir hverja grein umfram eina og til og með fimmtu greininni.
  5. Úthlutun til einstaks íþróttafélags getur ekki orðið hærri en 3% af veltu félagsins samkvæmt staðfestum reikningsskilum 2019 fyrir árið 2018 (fjárhagslegar tölur frá árinu 2018).
  6. Samtals verður úthlutun á grundvelli ofangreinds 300 milljónir króna.