Nýjast á Local Suðurnes

33% verslana á Suðurnesjum seldu börnum tóbak

Fimmtudaginn 28. maí sl. fóru fulltrúar Samsuð, samtök félagsmiðstöðva á Suðurnesjum með börn úr efstu bekkjum grunnskólans á sölustaði tóbaks á Suðurnesjum. Dapurlegt er að segja frá því að 33% verslana, seldu krökkunum sígarettur og 37% verslana seldu þeim munntóbak.

Óhætt er að segja að niðurstöðurnar séu verslunarmönnum ekki til framdráttar en áhersla verslana á að fylgja lögum um tóbakssölu og þess heldur áhyggjur af viðurlögum, vegna brota á reglum um sölu tóbaks til ungmenna, virðist enginn.

Samkvæmt reglugerð um smásölu tóbaks fer heilbrigðisnefnd hvers landsvæðis með leyfisveitingar og eftirlit á smásölu tóbaks, en niðurstöður reglulegra kannana Samsuð á sölu tóbaks til ungmenna í grunnskólum, leiða líkur að því að eftirlit með þeirri smásölu sé alveg óvirkt.

Könnunin var gerð með leyfi forráðamanna þeirra sölustaða sem farið var á og líklegt er að framhald verði á tóbakssölukönnunum á vegum SamSuð.