Nýjast á Local Suðurnes

20% af því sem við eigum notum við 80% af tímanum

Pareto lögmálið, oftast kallað 80/20 reglan, var sett fram af Vilfredo Pareto félagsfræðingi, verkfræðingi og heimspekingi við lok 19 aldar. Upphaflega sett fram til að sýna að tekjudreifing samfélaga væri ekki tilviljanakennd hefur væri hlutfallið alls staðar það sama. 20 % íbúa ættu 80% eigna. Ýmsir sérfræðingar nota 80/20 regluna og er hún mjög vinsæl í markmiðasetningu og viðskiptum.

Haukur Hilmarsson - Fjármálaráðgjafi

Haukur Hilmarsson – Fjármálaráðgjafi

Ég hef mína tilgátu sem byggir á lögmáli Pareto – Að 20% af því sem við eigum notum við 80% af tímanum.

Nú ætlum við að taka þessa speki til athugunar með því að yfirfara geymsluna og fataskápana okkar.

Ef þú hugsar um það hvaða föt þú notar mest, hvaða skó, hvaða útiföt, og hvaða tæki og tól í eldhúsinu, getur verið að þú notir einhverja hluti miklu meira en aðra? Samkvæmt lögmáli Pareto þá er hlutfallið einmitt það að 20% af því sem við eigum notum við 80% af tímanum. Geymslan og skápar á heimilinu eru samkvæmt þessu lögmáli full af eigum sem við notum sjaldan. Það eru eigur eins og útilegubúnaður, sumarvara , reiðhjól, vetrarfatnaður, skíði, jólaskraut og þess háttar. Fataskápar eru fullir af sparifötum, aukafötum, og skóm. En hvað af þessu notarðu?

Verkefnið er einfalt. Við skoðum alla skápa og geymslur og við flokkum hvern hlut miðað við hvort við notum hann: Já -nei – kannski. Við tökum allt út úr fataskápunum og flokkum eftir því hvaða föt við notum, notum kannski, og notum ekki. Það sem við notum má fara aftur inn í skáp. Það sem við munum ekki nota, til dæmis föt sem við pössum ekki í, höfum aldrei notað, eða vitum annars að við munum ekki nota, setjum við í svarta ruslapoka. Þau föt sem við ætlum kannski að nota flokkum við í já eða nei. Aftur setjum við já-fötin í skápinn og nei fötin í svarta ruslapoka. Sömu aðferð beitum við á skóna okkar og útifötin.

Seldu það sem þú notar ekki

Skráðu allt á  sölusíður eins og Bland og á Facebook og rukkaðu að minnsta kosti 500 krónur á hvern hlut. Hver króna sem þú færð fyrir þessa hluti, föt eða skó sem þú notar ekki mun nýtast betur í annað. Ég mæli að sjálfsögðu með að þú sparir söluhagnaðinn í stað þess að kaupa meira af hlutum.

Það sem selst ekki getur þú farið með í næsta Rauða Kross fatagám eða gefið í uppáhalds góðgerðamálin þín.

Það eru margar aðrar eigur sem við erum hætt að nota. Þar má telja bækur, farsíma, og heimilistæki ýmis konar. Margt af þessum hlutum eru eigulegir og því hægt að selja fyrir ágætis verð.

Það sem við græðum á þessu er margþætt. Við tökum til, við losum okkur við óþarfa dót, og við fáum pening til að kaupa okkur eitthvað sem nýtist okkur. Og næst þegar þú ferð að kaupa þér eitthvað nýtt mundu þá eftir  80/20 reglunni – hve mikið munt þú nota þessa nýju hluti?